Það hefur verið óvenju lítið um fréttir þessa fyrstu viku eftir að stóru vötnin, Þingvallavatn og Úlfljótsvatn opnuðu.  Það hefur verið frekar kalt en þeir hörðustu hafa þó verið iðnir við veiðar og uppskorið sæmilega vel.  Hér fyrir neðan eru smá fréttaskot úr vötnunum sem við höfum heyrt frá.   Þessi vötn henta vel á morgun en þá er Uppstigningardagur sem er almennur frídagur.
Vífilsstaðavatn

Með lítillega hækkandi hitastig hefur veiðin í Vífilsstaðavatni farið í gang og algengt að menn séu að setja í nokkuð væna fiska.  Bleikjustofninn virðist vera vel haldinn og við ákveðin skilyrði virðist hún taka mjög vel flugur veiðimanna.  Hér fyrir neðan koma nokkrar myndir sem teknar voru við Vífilsstaðavatn í gær 7.maí.
 
 
 
Kristján V. Kristjánsson með fallegar bleikjur sem hann fékk í Vífilsstaðavatni á litla púpu.
 
Þingvellir
Urriðinn er kominn á kreik og á kvöldin virðist hann láta vita af sér með sporðaköstum og látum.  Við heyrðum af veiðimönnum þar í gærkvöldi.  Magnús fékk einn 12 punda fisk í Vatnskoti.  Við hliðina á honum var Örn Guðmundsson við veiðar og fékk hann 3 urriða af ýmsum stærðum. Þessir fiskar fengust allir  á maðkinn. Einnig heyrðum við af fluguveiðimanni sem náði að setja í einn risa, en sá fiskur var 85cm og 40cm í ummál.  Ríkarður Hjálmsson fékk einnig 84cm urriða þar s.l. föstudag.  Það má því segja að það sé mikið líf á Þingvöllum. 
 
Fallegur urriði sem Ríkarður Hjálmarsson fékk. Fisknum var sleppt aftur að lokinni viðureign
 
Magnús með 12 punda urriða úr Vatnskoti
 
Fallegur 60cm urriði sem Halldór Gunnars veiddi 5. maí.
 
Rétt er að ítreka að heimilt er að veiða á nóttunni á Þingvöllum og að makrílveiði er stranglega bönnuð í þjóðgarðinum.   Aðeins má veiða með flugu, maðk og spún.  Einnig bendum við á að ekki er talið æskileg að neyta urriða sem eru stærri en 50cm þar sem kvikasilfursmagn í stórurriðanum hefur mælst hátt.  Það er beinlínis hættulegt fyrir barnshafandi konur!
Einnig hefur bleikjan aðeins verið að sýna sig en ætla má að hún fari að koma nær landi með hækkandi hitastigi.  Yfirleitt fást stærstu bleikjurnar í maí en þá virðist vera meira að sílableikju við landið og getur hún orðið mjög stór.
 
Elliðavatn
Veiðimenn hafa verið að gera fína veiði í Elliðavatni það sem af er sumri, en vatnið opnaði sumardaginn fyrsta.  Margir hafa komist upp á lagið með að tæla urriðann með ýmsum straumflugum og púpum.  Urriðinn er vel haldinn og sterkur auk þess sem stöku bleikja hefur verið að koma á land.  Algeng er að menn séu að fá urriða á bilinu 1-3 pund. 
 
Halldór Gunnarsson með fallegan urriða úr opnun Elliðavatns 25. apríl s.l.
 
Meðalfellsvatn
Veiðimenn hafa verið duglegir að stunda Meðalfellsvatnið síðustu daga og hafa veiðimenn verið að ná í sæmilega fiska.  Meðalfellsvatn er aðgengilegt og þægilegt veiðivatn stutt frá höfuðborgarsvæðinu.
Hraunsfjörður
Bleikjan er aðeins farin að sýna sig og höfum við spurnir af veiðimanni sem fékk þar lax um síðustu helgi. 
Við hlökkum til að að heyra frá ykkur veiðimönnum og ekki væri verra að fá myndir frá veiðislóð sem og einhverjar fréttir.  Netfangið okkar er veidikortid@veidikortid.is og einnig hvetjum við veiðimenn að senda myndir inn á FACEBOOK síðu Veiðikortsins sem er www.facebook.com/veidikortid
Með veiðikveðju,
Veiðikortið

0 Comments

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri frétt
Héðan og þaðan – 18. maí
Næsta frétt
Þingvellir – fallegir urriðar!