Silungsveiðin gengur vel í blíðskaparveðrinu sem hefur verið á landinu síðustu daga og vikur. Þrátt fyrir að laxveiðimenn kvarti og vilji veðurbreytingar og meira vatn þá geta silungsveiðimenn sem stunda vötnin ekki kvartað. 

Veiðimenn hafa verið að fá fína veiði nánast um allt land. Vestmannsvatn fyrir norðan hefur verið að skila fínni veiði og Þingvallableikjan er loksins farin að gefa sig í meira mæli og fleiri ánægðir veiðimenn koma þaðan með frábæra veiði og vænar bleikjur.

Í Hraunsfirði er sjóbleikjan að synda um í torfum. Oft getur þó verið erfitt að fá hana til að taka grimmt, en þá bendum við veiðimönnum á að prufa þurrflugur í bland því stundum er það eina agnið sem bleikjan tekur. Einnig er rétt að benda á Langskegginn sem hann Örn Hjálmarsson hannaði en hann og fleiri hafa veitt vel á þá flugu í firðinum.

Það liggur við að nánast hvar sem borið niður – veiðimenn virðast vera að fá fína veiði í vötnunum og fátt notarlegra en að viðra sig með veiðistöng í hönd á þessum fallegu sumarkvöldum.

Veiðimenn hafa verið að stunda Elliðavatnið vel síðustu daga og eru menn að fá fína urriða og bleikjur í bland. Einnig er lax farinn að stökkva í vatninu sem hækkar iðulega aðeins blóðþrýstinginn hjá veiðimönnum.

 


Hér er Robert Nowak með fallega Þingvallableikju frá því fyrr í sumar.

 

 

Með veiðikveðju,

Veiðikortið

0 Comments

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri frétt
Falleg bleikja úr Vestmannsvatni
Næsta frétt
Þingvallavatn – hvar er bleikjan?