Góð veiði hefur verið upp á síðkastið í flestum vötnum landsins enda lífríkið á fullu og fiskar að byggja sig upp fyrir hrygningartímann.
Í Þingvallavatni og Úlfljótsvatni hafa veiðimenn verið að gera mjög góða veiði á bleikjuslóðum og eru bleikjurnar mjög fallegar. Björn Róbert Ómarsson kíkti t.d. í þjóðgarðinn í gær og fékk 10 fallegar bleikjur. Morgnarnir hafa verið að gefa betur en þó hafa veiðimenn verið að fá fína kvöldveiði inn á milli. Kjartan Helgason og Emil Gunnlaugsson eru meðal þeirra sem hafa verið að kíkja á Þingvelli síðustu daga og sendu okkur þessa skemmtilegu mynd fyrir neðan.
Notarlega stund við Þingvallavatn í þjóðgarðinum.
Ríkarður Hjálmarsson hefur mikið dálæti á Úlfljótsvatni. Hann er einnig duglegur að taka myndir jafnt undir yfirborðinu sem yfir. Hér fyrir neðan koma tvær flottar myndir frá honum en hann skaust í Úlfljótsvatnið fyrir fáeinum dögum.
Ein af mörgum fallegum myndum sem Ríkarður hefur tekið undir yfirborðinu. Þessi er á leiðinni í land!
Ríkarður Hjálmarsson með fallega bleikju í Úlfljótsvatni sem stóðst engan veginn Peacock púpuna hans.
Elliðvatn hefur verið að gefa vel í allt sumar og eru veiðimenn að fá bæði urriða og bleikjur þar þessa dagana. Búið er að vera frábært útivistarveður en þegar það er hlýtt og sólríkt er fæðuframboð gott í vatninu og því meiri samkeppni frá náttúrunni og því enn mikilvægara að bjóða upp á agn við hæfi. Guðmundur Ásgeirsson fer reglulega í Elliðavatnið og veiðir jafnan mjög vel. Þessa fallegu fiska fékk hann þann 22. júlí á maðkinn. Hann fór einnig í Þórisstaðavatn í byrjun júlí og fékk þar fallegan 3 punda urriða.
Guðmundur Ásgeirsson með flotta veiði úr Elliðavatni 22. júlí.
Meðalfellsvatn hefur einnig verið að gefa vel og laxinn farinn að ganga upp í vatnið. Óskar Guðmundsson var þar á dögunum og fékk 4 punda lax þar á maðkinn ásamt urriða.
Óskar glaður með óvæntan feng úr Meðalfellsvatni – nýgenginn 4 punda lax.
Við hvetjum veiðimenn til að senda okkur myndir og fréttir af öðrum vatnasvæðum á tölvupósti – veidikortid@veidikortid.is eða sem innlegg á Facebook síðuna okkar sem er www.facebook.com/veidikortid
Með veiðikveðju,
Veiðikortið
0 Comments