Stórurriðinn sem veiddist í Úlfljótsvatni 18. maí af Þorsteini G. Kristmundssyni bar númerað plastmerki (slöngumerki) við bakugga. Upp úr kafinu kom að hann hafði verið merktur af Jóhannesi Sturlaugssyni hjá rannsóknafyrirtækinu Laxfiskum ehf.
"Hænginn góða stóð ég að hrygningu í Efra-Sogi haustið 2007. Ég hafði séð að það var hrygning hafin þar 2006 og ákvað því að gera betur 2007 og merkja eitthvað af hrygningarfiski. Sá sem veiddist nú í Úlfljótsvatni var einn af þeim, en stærsti félagi hans þar í haust vóg 7,4 kg og var 85 cm langur. Fiskurinn sem að Þorsteinn veiddi nú í Úlfljótsvatni var á liðnu hausti 6,415 kg og 80,1 cm langur og hafði því náð að fita sig töluvert strax á vordögum."
Jóhannes Sturlaugsson hefur stundað framsæknar rannsóknir á urriðanum í Þingvallavatni um árabil þar sem ýmsar gerðir rafeindafiskmerkja hafa gegnt mikilvægu hlutverki í skráningum á atferli urriðans og umhverfi. Þær rannsóknir hafa verið styrktar af Þjóðgarðinum Þingvöllum (Þingvallanefnd) og lengst af einnig Landsvirkjun auk þess sem Orkuveita Reykjavíkur styrkti upphaf þeirra sem og stangveiðifélögin SVFR, SVH og Ármenn. Jóhannes segir að bændur við Þingvallavatn og stangveiðimenn hafa skilað dýrmætum upplýsingum til þessara rannsókna og gögnin frá endurheimtu merkta urriðans í Úlfljótsvatni sé enn eitt dæmið um það gagn sem felst í skilum veiðimanna á upplýsingum um merkta fiska. Í lokin bendir Jóhannes á að vegna rannsókna sem nýhafnar séu í Efra-Sogi og Úlfljótsvatni með stuðningi frá Landsvirkjun þá sé líklegra að merktir urriðar veiðist í Úlfljótsvatni og biður veiðimenn því að hafa hjá sér augun.
0 Comments