Það sem af er maímánuði hefur einkennst af talsverður kulda. Í raun hefur verið of kalt til að vataveiðin hafi farið á fullt, enda hefur næsturfrost verið nánast daglegt brauð víða.

Nú stefnir í aðeins jafnari hita en gott væri að fá a.m.k. nokkra daga með hærri hita til að skordýralífið komist á fullt skrið og þar sem fer fiskurinn á meiri ferð í leit að æti. 

Á Þingvöllum hefur verið fín urriðaveiði og hafa veiðimenn verið að fá eina og eina rígvæna sílableikju. Það hafa komið smá skot í kuðungableikju en við munum sjá meira af henni með hækkandi hita. Þeir sem hafa verið duglegir að stunda vatnið hafa þó veitt vel þó svo það hafi þurft að hafa fyrir veiddum fiskum.

Sama er upp á tengingnum við Úlfljótsvatn, en þar hafa menn aðallega verið að krækja í einn og einn urriða. Almennt tala veiðimenn um að þar fari bleikjan ekki að veiðast neitt að ráði fyrr en um miðjan júní.

Vífilsstaðavatn hefur verið að gefa ágætlega, en Garðar Ingi Ingvarsson fékk eina spikfeita 47 sm bleikju þar fyrir nokkrum dögum. Það er mikið æti í vatninu eins og sjá má á holdafari bleikjunnar og það útskýrir að af hverju það getur verið erfitt að fá hana stundum til að taka.

 

Einnig hafa menn verið að fá ágæta veiði í Meðalfellsvatni og víðar. Í Hraunsfirði hefur ekki verið nein veisla, en veiðimenn þó verið að setja í bleikjur. 

Elliðavatn hefur verið það vatn sem hefur verið að gefa einna bestu veiðina það sem af er sumri, en þar er mikið af urriða og er hann að veiðast vítt og breitt um vatnið. Við heyrðum í veiðimanni sem pikkaði nokkra urriða upp á þurrflugu meira að segja í síðustu viku, en þá var fyrsta toppfluguklakið í gangi og fiskur að sýna sig víða. 

Vonandi verða veiðimenn duglegir að veiða um Hvítasunnuhelgina og okkur hlakkar til að fá fréttir af veiðisvæðum Veiðikortsins.

Með veiðikveðju,

Veiðikortið

 

 

 

0 Comments

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri frétt
Vatnaveiðin að hrökkva í gang!
Næsta frétt
Elliðavatn fer vel af stað!