Við höfum fengið fregnir og myndir frá veiðimönnum sem hafa verið að veiða í vötnunum.
Bleikjan í Þingvallavatni er farin að sýna sig í meira mæli og hafa veiðimenn verið að fá flottar bleikjur.  Lárus fékk t.d. þessa fallegu 4 punda bleikju hér fyrir neðan á Öfugsnáðanum á litla púpu sem hann fékk í þjónustumiðstöðinn á Þingvöllum. 

 
Fallega 4 punda bleikja sem Lárus fékk á Öfugsnáðanum.
 
Þórir Traustason var einnig að veiða á Þingvöllum um daginn og fékk hann þessa glæsilegu bleikju sem má sjá hér fyrir neðan:
 
Í næsta nágrenni er Úlfljótsvatn og hafa menn verið að fá mjög fallega veiði þar síðustu daga.  Stefán Freyr sendi okkur skemmtilegar myndir sem eru teknar 21-27. júní af fallegum bleikjum og rúmlega 10 punda urriða.  Einnig má skoða skemmtileg myndbönd sem Gulli G sendi okkur frá 26.júní af baráttu Sigurgeirs Ársælssonar við 6 punda urriða <sjá hér myndband> sem og þegar Gulli G fékk um 3 punda bleikju sem var ein af þremur sem hann fékk þann dag <sjá hér myndband>.  Gulli fékk einnig nokkrum dögum áður tvo tæplega 10 punda urriða í vatninu.
Hér fyrir neðan má sjá myndirnar sem Stefán Freyr sendi okkur:
 
Fallegar bleikjur sem Stefán Freyr fékk í Úlfljótsvatni 23. júní
 
Þessar fékk Stefán 21. júní
 
Glæsilegur urriði sem Leifur Sveinn fékk í Úlfljótsvatni 27. júní
Fiskurinn vó 5.5 kg.
 
Svinavatn hefur verið að standa undir væntingum í sumar og menn hafa verið að fá flottan afla.  Hér fyrir neðan má sjá mynd af afla sem tveir veiðifélagar fengu þar fyrir nokkrum dögum, en þeir fengu 16 silunga, 15 urriða og eina bleikju.
 
Flottur afli úr Svínavatni.
Einnig höfum við verið að fá fréttir af fínni veiði í Kleifarvatni, Hítarvatni og Meðalfellsvatni. 
Við þökkum veiðimönnunum kærlega fyrir upplýsingarnar og myndirnar sem veiðimann hafa sent okkur.
Ef þú hefur fréttir frá öðrum vatnasvæðum eru þær vel þegnar.  Netfangið okkar er veidikortid@veidikortid.is.  Einnig bendum við mönnum á að hægt er að setja myndir beint inn á Facebook síðu okkar.
Einnig viljum við minna menn á fluguveiðinámskeið sem Veiðiheimur heldur fyrir Veiðikortshafa á sérstaklega hagstæðu verði.  Tilvalið fyrir þá sem eru að stíga sín fyrstu skref í fluguveiði.  Einnig er rétt að benda á að í júlímánuði verður haldið veglegt fluguveiðinámskeið á bökkum Þingvallavatns í samstarfi við Veiðiheim, en nánar um það síðar. 
Með veiðikveðju,
Veiðikortið
 
 

0 Comments

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri frétt
Flottir fiskar úr Úlfljótsvatni og Þingvallavatni II.
Næsta frétt
Héðan og þaðan – myndir frá Úlfljótsvatni og Skagaheiði