Við höfum fengið fregnar af veiði af hinum ýmsu stöðum og hér eru nokkrir punktar úr flestum landshlutum.
Vífilsstaðavatn:
Síðustu dagar hafa verið erfiðir veiðimönnum þar sem mikið æti hefur verið í vatninu þannig að samkeppnin hefur verið óþægilega mikil við náttúrlegt æti. Fiskarnir hafa varla litið við flugum veiðimanna þó svo menn hafi verið að ná í eina og eina bleikju og einhverja smáa urriða.
Ungur veiðimaður með fallega veiði í Vífilsstaðavatni. Mynd frá 2011
Þingvellir og Úlfljótsvatn:
Þá er bleikjan loksins farin að sýna sig á Þingvöllum sem og í Úlfljótsvatni og eru veiðimenn farnir að fá fallegar bleikjur þar ásamt fallegum urriðum sem hafa verið að veiðast þar jafnt og þétt frá því vötnin opnuðu.. Það verður gaman að fylgjast með gangi mála í þessum vötnum um helgina en veðurspáin er veiðileg.
Falleg Þingvallableikja frá júní 2011.
Hópið:
Heyrst hefur að veiðmenn hafi verið að hitta á fín bleikjuskot þannig að þeir sem eru á norðurleið um helgina ættu að kíkja í Hópið og kanna stöðuna, en það er fátt skemmtilegra en að lenda í góðum bleikjuskotum þar. Helst hafa menn verið að veiða á Ásbjarnarnesinu og þeir sem leggja það á sig að ganga út með Björgum fá yfirleitt eitthvað fyrir sinn snúð.
Ólafur Sigfús með fallegar sjóbleikjur úr Hópinu í júní 2011.
Hraunsfjörður:
Veiðimenn hafa verið að ná í fallegar bleikjur í einhverju mæli í Hraunsfirðinum og má ætla að næstu vikur þar verði drjúgar.
Falleg veiði úr Hraunsfirði frá 31. maí 2011.
Víkurflóð:
Óvanalega góð veiði hefur verið í Víkurflóði það sem af er sumri þrátt fyrir að vatnið sé kaldara en það hefur oft verið á þessum tíma.
Sjóbirtingur úr Víkurflóði
Urriðavatn:
Þegar hlýnaði um daginn þá tóku veiðimenn við sér og veiddu vel í vatninu en mikið er af fallegri bleikju í þar, en enginn urriði eins og nafnið á vatninu bendir til. Þeir sem ætla austur í hitabylgjuna þar um helgina ættu því að taka með sér veiðistöngina og reyna við bleikjuna, en veðurstofan spáir 24° hita þar á laugardaginn.
Fín bleikja úr Urriðavatni 2011.
Við bíðum eftir að heyra einhverjar fréttir frá Ljósavatni sem opnaði 20. maí en væntanlega verða veiðimenn duglegir að veiða þar í blíðviðrinu á næstu dögum. Varðandi Kringluvatn þá virðist vegurinn niður að vatni ennþá vera lokaður.
Það má því segja að vatnaveiðin sé að komast á fullan snúning þannig að við hvetjum veiðimenn til að vera duglega að stunda vötnin og endilega senda okkur fréttir og myndir af gangi mála þannig að hægt sé að miðla til annarra veiðimanna. Þeir sem ekki vilja koma fram undir nafni geta að sjálfsögðu óskað eftir nafnleynd.
Góða veiðihelgi!
Veiðikortið
0 Comments