Það er búið að vera frábær veiði í vötnunum síðustu daga og vikur. Hér stiklum við á nokkrum fréttum frá nokkrum vötnum sem eru í Veiðikortinu. Hvetjum veiðimenn einnig til að senda okkur fleiri fréttir.
Elliðavatn – Bleikjan kominn aftur!
Það eru einstaklega ánægjulegar fréttir sem berast úr Elliðavatni, en góð veiði hefur verið í því frá opnun. Mest hefur verið að veiðast af urriða en nú virðist bleikjan vera að taka í meira mæli. Veiðimenn sem stundað hafa vatnið segjast ekki hafa séð eins mikið af bleikju í vatninu líkt og núna, þannig að vonandi er bleikjan að taka við sér og stofninn að styrkjast. Rögnvaldur Rögnvaldsson fór ásamst föður sínum í vatnið í gær og lentu þeir heldur betur í óvæntri veiði en þeir fengu hvorki meira né minna en 30 fiskar á þremur klukkutímum og var bleikjan meginuppistaðan í aflanum. Hér fyrir neðan má sjá mynd af aflanum.
Ánægður veiðimaður með glæsilegan afla í bakgrunn!
Hér má sjá betri mynd af glæsilegum afla sem þeir feðgar fengu í gær, 14. júní í Elliðavatn. Bleikjan er að koma sterk inn!
Hraunsfjörður hefur verið að gefa vel síðustu daga. Hjörleifur Steinarsson fer árlega í Hraunfjörðinn og var hann þar fyrir nokkrum dögum. Það var mikið líf í firðinum og fengust 5 bleikjur í ferðinni og sú stærsta var 54cm.
Hjörleifur með fallegar bleikjur úr Hraunsfirði.
Melrakkaslétta:
Við höfum heyrt spurning af veiðimönnum sem hafa verið að fá fína veiði á Melrakkasléttunni. Þóroddur F. Þóroddsson kíkti í Æðarvatnið þann 10. júní og fékk tvo 1-2 punda urriða. Hann fór aftur til veiða þar 14. júní og fékk hann þá einn urriða og eina bleikju í vatninu og fékk hann fiskana á Nobbler flugu. Hann reyndi einnig í Arnarvatni en varð ekki var þar. Hann fékk líka fína veiði í Harðbaksvatni, sem er reyndar ekki í Veiðikortinu. Hann fékk reyndar einnig talsvert af smábleikju á þurrflugu en sleppti þeim aftur.
Þingvellir:
Það er búið að vera algjör bleikjuveisla á Þingvöllum síðustu daga og vikur! Veiðimenn hafa verið að fá vænar bleikjur upp í 5 pund. Einn og einn urriði er þó að slæðast með ennþá. Kristján Einar Kristjánsson fór í vatnið fyrir nokkrum dögum ásamt dóttur sinni Kolbrúnu Camillu og hófu þau veiðar við Vatnskotið. Hún veiðir á flugu eins og pabbi sinn. Hún setti að sjálfsögðu undir fluguna Kolbrúnu, og gerði lítið úr föður sínum þar sem hún fékk 60cm urriða í fyrsta kasti! Vel gert hjá Kolbrúnu!
Kolbrún Camilla með 60 cm fiskinn sem hún fékk í fyrsta kasti á fluguna Kolbrúnu!
Úlfljótsvatn:
Sama á við um Úlfljótsvatn en þar hefur verið feiknafín veiði síðustu daga. Veiðimenn hafa verið að fá mikið af fínni bleikju og inn á milli hefur einn og einn urriði verið að veiðast.
Syðradalsvatn;
Við kíktum við í Syðridalsvatni um helgina og urðum varir við bleikju þannig að hún er mætt á svæðið. Yfirleitt gengur eitthvað af bleikju svona snemma í vatnið. Nú styttist í stórstreymi þannig að búast má við að hún fari að ganga í meira mæli næstu daga. Vekjum athygli veiðimann á því að veiðikortshöfðum er ekki heimilt að veiða í Ósánni, sem rennur úr vatninu, en hægt er að kaupa veiðileyfi í ánna í Shellskálanum í Bolungavík.
Við Syðridalsvatn 14. júní 2014.
Við Syðridalsvatn 14. júní 2014
Með veiðikveðju,
Veiðikortið
0 Comments