Ekki missa af þessum tíma!

Þessa dagana hefur Elliðavatn skartað sínu fegursta. Vatnið virðist vera fullt af fiski og fiskar að vaka nánast hvert sem litið er. Ástæða þess er góð veðrátta og fiskurinn sækir í púpur sem eru að klekjast út.

Það er sem sagt eitt besta tímabil í gangi núna til að njóta Elliðavatn og við hvetjum veiðimenn til að láta ekki þennan tímaramma framhjá sér fara.

Við minnum veiðimenn einnig á að vera duglega að skrá afla á veidikortid.is/veidiskraning

 

Góða skemmtun!

Veiðikortið

Frábær sumarhátíð veiðimanna

Sumarhátíð við Elliðvatn

Í gær, sumardaginn fyrsta, var haldin sumarhátíð á vegum SVFR, Veiðikortsins, Skógræktarfélags Reykjavíkur og Veiðifélag Elliðavatn.  Fræðslunefnd SVFR sá um dagskrá fyrir veiðimenn og héldu Caddis bræður og Óli Urriði fróðlegan fyrirlestur um lífríki Elliðavatns strax á eftir kynningu frá Skógræktarfélagi Reykjavíkur. Örn Hjálmarsson og Geir Thorsteinsson kynntu hvor sína nálgun á sínar veiðiaðferðir og kynntu fyrir gestum þær aðferðir sem þeir nota við veiðarnar í vatninu á mismunandi tímum sumarsins.

Eftir veiðikynningu stóð Skógræktarfélagið fyrir skógarþrautum fyrir yngri kynslóðina auk þess sem í boði var að grilla sykurpúða yfir opnum eldi.

Krakkahátíð hófst um tólf með frumsýningu á fræðslumyndbandi eftir Ólaf Tómas eða Óla Urriða eins og hann er gjarnan nefndur. Í myndabandi var Beggi rannsóknar – blóðormur sögumaður og kynnti fyrir krökkunum hvernig lífríkið virkar eins og fyrir fimm ára.

Því næst var farið í ratleik sem tókst gríðarlega vel.  Krakkarnir voru spenntir og gripu með sér sílaháf og fóru á bakka Elliðavatns í leit að skordýrum sem þau settu í krukku og gátu skoðað þau í smásjá í framhaldi.  Mörgum foreldrum þótti leikurinn ekki síður spennandi!

Að lokum fengu gestir grillaðar pylsur þannig að enginn færi svangur heim.

Veiðin á opnunardeginum gekk framar vonum.  Veiðimenn fengu strax fiska upp úr klukkan sjö. Flestir fiskarnir voru vænir eða um 50 cm.  Ein væn bleikja koma einnig á land. Fínn lofthiti hefur verið á svæðinu síðustu daga, en í dag, fór hitinn upp í 15°.

Sumarið fer því sannarlega vel af stað og verður spennandi að fylgast með vatnaveiðinni á næstu dögum!

Urriðinn að sýna sig í Þingvallavatni!

Þó nokkrir veiðimenn hafa kíkt á Þingvelli og veitt í þjóðgarðinum síðan opnað var fyrir veiði á sunnudaginn.

Í gær var fallegur sunnudagur en þó frekar fáir að veiðum þar í gærkvöldi, en kvöldin eru oft best tíminn þegar verið er að eltast við urriðann. Í Vatnskotinu voru um fjórir veiðimenn og Brynjar Páll Jóhannesson einn þeirra.  Hann fékk þennan fallega 60 cm urriða í Vatnskotinu í gærkvöldi á straumfluguna Black Ghost.

 

 

Það verður spennandi að fylgjast með veiðinni þar næstu daga en við minnum á að aðeins er heimilt að veiða með flugu á flugustöng til 1. júní og skal öllum urriða sleppt.

 

Með veiðikveðju,

Veiðikortið

 

 

Veiðitímabilið hefst á morgun!

Þá er biðin loksins á enda og nýtt veiðitímabil hefst formlega í vötnunum á morgun, 1. apríl. Þá opnar fyrir veiðimenn í Vífilsstaðavatni, Hraunsfirði svo dæmi séu tekin. Endilega kynnið ykkur opnunartíma vatnanna á heimasíðu okkar.

Vorið hefur leikið við okkur og sjaldan eru aðstæður jafn góðar á þessum tíma árs. Fínn lofthiti hefur verið síðustu daga og því má ætla að meiri líkur séu á því að fiskur sé á hreyfingu og á sama tíma meiri líkur á að setja í fisk á opnunardaginn.

Við munum fylgast með gangi mála á morgun og treystum á að veiðimenn upplýsa okkur um aðstæður til veiða.

Vinsælustu vötnin 1. apríl hafa jafnan verið Vífilsstaðavatn, Hraunsfjörður sem og vötnin sem hafa þegar opnað enda opin allt árið eins og Gíslholtsvatn.

Alfreð með flotta vorveiði úr Elliðavatn, en vatnið opnar fyrir veiði 24. apríl næstkomandi.

Góða skemmtun!

Veiðikortið

Febrúarflugur stytta biðina í veiðitímabilið!

Veiðimenn um allt land þekkja þá tilfinningu að bíða spenntir eftir því að veiðitímabilið hefjist á ný. Til að stytta biðina og halda spennunni gangandi hafa margir tekið upp þá skemmtilegu hefð að hnýta flugur, eða Febrúarflugur, þar sem áhugamenn um fluguhnýtingar deila hugmyndum og veita hver öðrum innblástur.

Febrúarflugur er samfélagsverkefni sem hefur notið sívaxandi vinsælda meðal veiðimanna á Íslandi. Hugmyndin er einföld – í febrúar mánuði hnýta þátttakendur flugur og deila myndum á FB síðu Febrúarflugna. Þetta skapar einstaka stemmingu auk þess sem nýjar hugmyndir kvikna og færni í hnýtingum eykst.

Ekki skiptir máli hvort þú sért byrjandi eða lengra kominn í fluguhnýtingum – allir geta tekið þátt og lagt sitt af mörkum. Með því að halda hnýtingarfærninni við og deila þekkingu með öðrum verður biðin eftir veiðitímabilinu skemmtilegri og auðveldari.

Fylgist með Febrúarflugum á Facebook og taki þátt í þessum lifandi og skemmtilega viðburði!