Nú er hlýtt í lofti og mikið líf í vötnunum.  Veiðimenn hafa verið duglegir að standa vaktina í flestum vötnum landsins og veiðimenn verið að fá mikið af bleikju auk þess sem urriðinn virðist vera aðeins farinn að sýna sig aftur.

Mesta umferð veiðimanna hefur eflaust verið við Þingvallavatn, en um síðustu helgi má segja að erfitt hafi verið að fá bílastæði.  Fallegt veður og veiðimenn að veiða margar bleikjur.  Á Vísir.is er t.d. sagt frá því þegar blaðamaður horfði yfir vatnið og sá 5 veiðimenn á víð og dreif með fiska á í einu! Margir veiðimenn fengu á annan tug fiska.  Jedarinn Kongasanan fékk til dæmis um 40 bleikjur samkvæmt fréttinni.  Veiðimenn hafa einnig fjölmennt við Elliðavatn.  Ágætis veiði hefur verið þar síðustu daga.


Arnar með fallegan urriða úr Elliðavatni!

Úlfljótsvatn hefur einnig gefið mjög vel og menn verið að mokveiða þar.  Aðalsteinn Jörundsson var á bleikjuveiðum þar um helgina og fékk hann 5 kg urriðahæng á Peacock púpu. Fiskurinn var hvorki meira né minna en 72 cm.  


Ungur veiðimaður, Þórður Harðarson með fína fiska úr Úlfljótsvatni.

Þeir sem vilja prófa fleiri staði í nágrenni við höfuðborgina er bent á að fín veiði er einnig í Meðalfellsvatni en þar má einnig eiga von á laxi þegar líður á sumarið og ættu fyrstu laxarnir nú þegar að vera byrjaðir að veiðast.  Einnig heyrðum við af glæsilegum urriða sem fékkst í Baulárvallarvatni, en þar veiðist jafnan vel þegar aðeins fer að líða á og birtan að minnka á kvöldin.  Fyrir þá sem vilja taka rúnt á Snæfellsnesið er bent á að skemmtilegt er að blanda saman t.d. sjóbleikjuveiði í Hraunsfirði og urriðaveiði í Baulárvallarvatni.

Við viljum hvetja veiðimenn til að vera duglegri við að senda okkur myndir og fréttir til að miðla til veiðimanna.  Einnig væri gaman að fá veiðimenn sem taka myndir á síma sína og eru að nota INSTAGRAM að "Hashtagga" myndir og merkja þær #veiðikortið2014 (með íslenskum stöfum) og setja myndir inn á tímalínu Veiðikortsins á Facebook.

Við höfum lítið heyrt frá öðrum vötnum, og verður því að biðla til veiðimanna að senda okkur fréttir frá vatnasvæðunum og endilega leyfið myndum að fljóta með.

 

Með veiðikveðju,

Veiðikortið

 

0 Comments

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri frétt
Hítarvatn gefur vel!
Næsta frétt
Kleifarvatn á Reykjanesi að koma til!