Carl fékk að kynnast því við Elliðavatn, en þar höfðu álftaungar flækt sig í girnisstubb sem einhver hafði skilið eftir sig á bakkanum.
Við viljum því hvetja menn til að skilja ekki eftir sig girnisstubba.
Carl sendi okkur reynslusögu sína frá því í gær:
Ég fór að veiða í Elliðavatni í dag og ákvað að prófa að kíkja inn í Helluvatn í Kerið. Þar var álftapar með þrjá unga og þegar ég kom nær var parið farið út í vatn af bakkanum ásamt einum unga, síðan er ég kom nær tók ég eftir að hinir tveir ungarnir fóru hvergi. Tók ég þá eftir að þeir lágu fastir á bakkanum með um 2-3 metra langan taumbút fastan utan um lappir og búk.
Mér tókst að losa þá báða þó geri ég ráð fyrir að annar þeirra hafi laskað aðra löppina aðeins eftir þetta. Pikkfastir voru þeir, gátu sig hvergi hreyft.
Eftir að ég losaði fyrri ungann kom önnur álftin upp á bakkann aftur, hvæsandi og glennti út vængina. Ég var alveg á því að hún myndi bara rjúka í mig þannig að ég stóð upp og út með hendurnar eitthvað að reyna að þykjast vera stærri en hún. -_- Eftir smástund róaðist hún aðeins og bakkaði aftur út í vatn. Þá er ég hafði losað seinni ungann og sleppti honum í vatnið kom álftin aftur syndandi að á fleygiferð en hægði á sér þegar unginn kom til hennar, stoppaði síðan, leit á mig og hneigði sig tvisvar fyrir mér. 🙂
Endaði allt nú vel að lokum og vonandi braggast ungarnir frá þessu. En kennir þetta manni hversu hættulegur smá taumbútur getur verið ef skilinn er eftir svona á víðavangi.
Tökum nú höndum saman og tínum upp alla taumbúta sem við sjáum og látum menn vita sem sem kasta þessu frá sér hversu hættulegt þetta getur verið.
Með kveðju, Carl Jóhann Gränz
0 Comments