Veðrið hefur leiki við landann síðustu daga og menn hafa verið að veiða vel í blíðunni. Við höfum þökk sé Veiðikortshöfum, fengið talsvert af Veiðiskýrslum sem gefa okkur smá hugmynd um hvar menn eru að fá hann.
Langavatn:
Við höfum heyrt af nokkrum sem ætluðu að skella sér í Langavatn í Borgarfirði um helgina. Slobodan Anic fékk fallegan 57cm urriða á svartan toby þar þann 27/6, en þrátt fyrir að það sé talsvert af smáum fiski í Langavatni er urriðastofninn þar fallegur, en þeir sem þekkja þar til fá alltaf einn og einn fallega urriða.
Kleifarvatn:
Við höfum ekki heyrt ýkja mikið þaðan en síðust daga hafa menn verið að fá talvert af urriða þar um 1-2 pund á maðk eða spún.
Mynd sem við fengum senda í maí úr Kleifarvatni.
Hítarvatn:
Í Hítarvatni er búið að vera mikil veiðisókn og menn hafa verið að afla nokkuð vel. Einn veiðimaður sendi okkur skýrslu um að hann hafi fengið þar 6 urriða og eina bleikju um mánaðarmótin.
Mynd frá Karli Bartels frá 2006 með afla úr Hítarvatni.
Í síðustu viku sögðum við frá ferð Sigurbergs Guðbrandssonar, en hann fór ásamt félögum sínum hringinn og veiddi í t.d. Víkurflóði í skamma stund, Þveit, Urriðavatni og upp á Skagaheiði. Hérna kemur frásögn hans og nokkrar myndir sem fylgdu með:
"Hér eru myndir úr Urriðavatni og Vatnasvæði Selár sem við heimsóttum síðustu daga.
Í Víkurflóði fengum við einn ál en þar ætluðum við að stoppa yfir nótt og tjalda en þar er engin aðstaða fyrir tjaldsvæði fyrir utan að maður kemst á klósett á hótelinu og kostar heilar 2000 kr að tjalda þar per mann.
Í Þveit fengum við 7 urriða alla frekar smáa en sáum þar urriða á bilinu 4-5pund á að giska. Þar lék veðrið við okkur, hiti og flottheit en töluverður gróður var kominn upp í vatninu.
Í Urriðavatninu fengum við þessar fjórar flottu bleikjur auk þess að missa tvær og verða varir við fiska.
Í Vatnasvæði Selár fengum við mikið magn af smá urriða og hefur vatnið greynilega ekki verið grisjað í einhvern tíma nema þá að litlum hluta. Slóðinn að vatninu er illfær og þarf að labba um 30 mínútna leið ef ekki er farið á góðum jeppa þangað. Þar komum við seint, hófum veiði ekki fyrr en um 10 og vorum við veiðar til að verða 3 um nóttina. Hittum þar menn sem höfðu fengið um 16 fiska, mest smáfisk en þar voru 2 fínar bleikjur um 2 pund og urriði sem var 3 pund og veiddist á makríl.
Töluvert virðist vera um það að menn séu að beita makrílnum þar sem talað er um að leyfilegt agn sé aðeins fluga maðkur og spónn.
Makrílveiði var líka stunduð í Þveit á meðan við vorum þar en stóri urriðinn fékst á afskorinn sporð af smáurriða sem veiddur hafði verið í vatninu."
Hérna koma myndirnar sem fylgdu með og við þökkum Sigurberg fyrir ferðasögu sína.
Við Urriðavatn fyrir austan, rétt hjá Egilsstöðum.
Bleikjur sem fengust í Urriðavatn, athyglivert að vatnið ber ekki nafn með rentu þar sem enginn urriði veiðist í vatninu, aðeins bleikja.
Hér fyrir neðan eru tvær myndir frá Vatnsvæði Selár á Skagaheiði:
Skemmtilegar ár og lækir renna á milli vatnanna á Skagaheiði. Mikill fiskur leynist í þar í hyljum.
Sigurberg Guðbrandsson kominn með hann!
Úlfljótsvatn og Þingvallavatn:
Vötnin hafa verið mikið stunduð og menn verið að veiða bleikju sem aldrei fyrr í Þingvallavatni. Í Úlfljótsvatnið hefur verið mikið líf, og bleikjan verið að taka ágætlega. Heyrðum af einum 14 ára gutta sem kastaði út í með spún og eftir nokkur köst landaði hann fallegum 5 punda urriða!
Mynd frá Stjána Ben síðan í maí við Úlfljótsvatn.
Hraunsfjörður "kominn á topp 5"
Á spjalli Veiðikortsins lýsir Símon Viðar skemmtilegum stundum við Hraunsfjarðarvatn og látum við þann texta fylgja hérna með:
"Vorum komnir upp undir morgun upp í vatn og byrjaðir að kasta. Dúnalogn og algjör kyrrð fyrir utan eina og eina rjúpu að ropa upp í hlíð. Okkur varð strax ljóst að þarna vantaði ekki bleikjuna því hún elti nánast allann liðlangann daginn alveg upp í harðaland…. en vildi bara ekki bíta á. Eftir 4 tíma, 20-30 flugur og vænan skammt af sólbruna á hnakka þá kom loksins fyrsta bleikjan á land og tók hún bleikan dýrbít. Eftir að hafa skoðað inn í hana þá sáum við að hún vara stútfull af marfló og þá var hún sett undir. En ekkert gekk, hún kom og sýndi sig aftur og aftur en var greinilega ekki í tökustuði. Eftir 4 tíma í viðbót þá fórum við heim á leið með einn pundara en frábærann dag í einum fallegasta veiðistað á vesturlandi. Klárlega í topp 5 og ég kem aftur. "
Mynd frá því í fyrra af tveimur svellköldum í Hraunsfirði.
Með bestu kveðju,
Veiðikortið
0 Comments