Vel hefur gengið í urriðaveiðinni síðustu daga.  Mest hefur borið á stórum urriðum í Þingvallavatni, en einmitt er góð von á þeim stóra í t.d. Úlfljótsvatni, Kleifarvatni, Baulárvallavatni og Ljósavatni fyrir norðan sem og Kringluvatni í Reykjahverfi, en í þessum vötnum eru skilyrði þannig að urriðinn virðist nærast vel í kjöraðstæðum enda eru þar sem stofnar eru í vexti.  Veiðimenn eru farnir að fá eina og eina bleikju á Þingvöllum þannig að það er margt spennandi í boði fyrir veiðimenn þessa dagana.

Í Kleifarvatni á Reykjanesi hefur urriðinn verið í mikilli sókn eftir öflugt ræktunarátak hjá SVH fyrir nokkrum árum.  Jón H. Daníelsson stundar vatnið mikið og var hann við veiðar þar 10. maí 2011.  Hann segir mikinn urriða fást í vatninu um þessar mundir og dæmi um að menn séu að fá upp í 10-20 fiska þegar vel gengur.  Urriðinn virðist taka allt agn, hvort sem það sé fluga maðkur eða spónn og hefur skapast skemmtilega stemming við vatnið og skemmtileg blanda af veiðimönnum við veiðarnar.  Einnig má nefna að mikið hefur borið á að menn séu að nota makrýl, síld og jafnvel ýsu, en þess ber að geta að leyfilegt agn er aðeins fluga, maðkur og spónn. 
Veiðimenn eru hvattir til að ganga vel um vatnasvæðin og ekki skilja eftir sig rusl eða önnur óæskileg ummerki.  Fátt er leiðinlegra en að koma að fallegum veiðistað og þurfa að byrja á því að hreinsa upp girnisbúta, sígarettustubba eða umbúðir utan af drykkjarvörum. 
Hér fyrir neðan má sjá 3 myndir sem við fengum hjá Jóni H. Daníelssyni sem hann tók við Kleifarvatn 10. maí sl.
 
Oddur Jónsson með fallegan 4 punda fisk sem hann veiddi á maðkinn 10. maí 2011.
 
Jón Haukur með fallega veiði.
 
Glæsileg kvöldveiði úr Kleifarvatni 10. maí 2011.
Við þökkum Jóni kærlega fyrir myndirnar og upplýsingarnar úr Kleifarvatni.
Einnig höfum við heyrt á förnum vegi um veiðimenn sem hafa verið að gera það gott í ljósaskiptunum í Baulárvallavatni.  Einnig hafa menn verið að fá dáldið af sjóbirting (geldfiski) í Víkurflóðinu. 
Hvetjum veiðimenn til að senda okkur línu um hvernig staðan í vötnunum eru. 
 
Einnig látum við fylgja með skemmtilega mynd sem við fengum senda frá Veiðikortshafa af ungum og áhugasömum veiðimanni með fallega veiði úr Vífilsstaðavatni.
Einnig fengum við skemmtilega mynd frá honum Jóhanni Frey og sannar að það þarf ekki stóra fiska til að gleðja veiðimenn – oft er nóg að vita að það sé líf og að vera í fallegu umhverfi. 
 
 
Jóhann Freyr með líflegan smáurriða í Meðalfellsvatni. 
 
Hér að ofan er Halldór Gunnars með fallega 3 punda bleikju sem hann fékk í Vatnskoti á Peacock púpu
 
Bleikjan hans Halldórs.  Falleg u.þ.b. 3 punda á Peacock púpu 11. maí.
 
Með veiðikveðju,
Veiðikortið
 

0 Comments

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri frétt
Úlfljótsvatn – flott veiði hjá ungum veiðimanni!
Næsta frétt
Kleifarvatnið kemur vel undan vetri