Einar Guðnason, yfirkennari hjá Veiðiheim var fyrir norðan og prófaði Kringluvatnið á leið sinni.  Hér má lesa söguna og sjá myndirnar.   Þar má sjá að ennþá ræður vetur konungur ríkjum þrátt fyrir að júní sé á næsta leiti.  Gefum Einari orðið:

 
Með Veiðikortið í Vasanum
Ég var á leiðinni á Húsavík og ákvað að taka nokkur köst í Kringluvatn. Eftir mislukkaða tilraun til að veiða Sænautavatn þar sem það var enn ísilagt og ófært að því í þokkabót, þá var nú bjartsýnin ekki mikil er ég kom að slóðanum við Kringluvatnið. LOKAÐ, LOKAÐ! Vegurinn var enn töluvert blautur og partur af honum enn undir snjó.
 
 
Með von í að krækja í fisk þá lagði ég af stað léttklæddur þar sem vorið virtist vera handan við hornið. 1,7 km síðar var ég rétt ókominn að bakkanum er endur í hundraðatali sem höfðu komið sér vel fyrir við útfallið, tóku á flug með tilheyrandi vængjaslætti og tilhlaupum. Ekki átti ég nú von á miklu úr þessu en ákvað þó að reyna. Vatnið var enn töluvert kalt og var því neoprenið kærkomið. Byrjað var á púpum í yfirstærð, watson fancy, molinn, montana, svo komu nobblerarnir, og restin af straumflugunum, áður en ég vissi var ég hálfnaður með boxið án þess þó að verða var. Himbriminn hafði fært sig nær og nær, og hafði  góðar gætur á því sem ég var að gera. Ég ákvað að prófa við hinn enda vatnsins þar sem rennur smá lækur í það. Á leið minni rakst ég á tjaldstæðið sem var á kafi í snjó, þannig að ef eitthver hafði gert sér vonir um að tjalda við bakkann þá held ég að það sé óhætt að geyma það í tvær vikur eða þrjár.
 
Eftir að hafa nestað mig upp, skellti ég nobblernum undir, með það í huga að svangur silungur stæðist ekki svona bita. Það leið ekki á löngu þangað til ég fékk högg, og svo fljótlega var fiskur á! Ekki náði hún pundi og var frekar ræfilslega að sjá, en fallegur er litur bleikjunnar.
Fljótlega urðu þær tvær, svo þrjár og fjórar en þá mætti himbrimaparið á svæðið og um leið dróg fyrir töku.  Það gerði nú lítið til því ég þurfti að halda áfram ferð minni til Húsavíkur. Á bakaleiðinni var fjölskrúðugt fuglalíf að sjá, m.a. straum og gargendur, fálka, rjúpur og einn ref sem skaust á milli hóla.
 
Ekki voru þeir margir eða stórir í minni fyrstu ferð í Kringluvatn en ég á án efa eftir að koma þangað aftur enda vatnið úr alfara leið og er eflaust gaman að tjalda við bakkann á góðum sumardegi, enda rólegt og fallegt umhverfi við vatnið.
 
Lokað-lokað!  Einar hélt af stað fótgangandi síðasta spölinn.
 
 
 
Fallegt Kringluvatnið.
 
Það hafa ekki margir nýtt sér tjaldstæðið það sem af er sumri.
 
 
Bestu kveðjur,
Einar Guð
 

0 Comments

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri frétt
Flott fjölskylduferð í Hraunsfjörð!
Næsta frétt
Hraunsfjörður – bleikjan mætt á svæðið