Sumarhátíð við Elliðvatn

Í gær, sumardaginn fyrsta, var haldin sumarhátíð á vegum SVFR, Veiðikortsins, Skógræktarfélags Reykjavíkur og Veiðifélag Elliðavatn.  Fræðslunefnd SVFR sá um dagskrá fyrir veiðimenn og héldu Caddis bræður og Óli Urriði fróðlegan fyrirlestur um lífríki Elliðavatns strax á eftir kynningu frá Skógræktarfélagi Reykjavíkur. Örn Hjálmarsson og Geir Thorsteinsson kynntu hvor sína nálgun á sínar veiðiaðferðir og kynntu fyrir gestum þær aðferðir sem þeir nota við veiðarnar í vatninu á mismunandi tímum sumarsins.

Eftir veiðikynningu stóð Skógræktarfélagið fyrir skógarþrautum fyrir yngri kynslóðina auk þess sem í boði var að grilla sykurpúða yfir opnum eldi.

Krakkahátíð hófst um tólf með frumsýningu á fræðslumyndbandi eftir Ólaf Tómas eða Óla Urriða eins og hann er gjarnan nefndur. Í myndabandi var Beggi rannsóknar – blóðormur sögumaður og kynnti fyrir krökkunum hvernig lífríkið virkar eins og fyrir fimm ára.

Því næst var farið í ratleik sem tókst gríðarlega vel.  Krakkarnir voru spenntir og gripu með sér sílaháf og fóru á bakka Elliðavatns í leit að skordýrum sem þau settu í krukku og gátu skoðað þau í smásjá í framhaldi.  Mörgum foreldrum þótti leikurinn ekki síður spennandi!

Að lokum fengu gestir grillaðar pylsur þannig að enginn færi svangur heim.

Veiðin á opnunardeginum gekk framar vonum.  Veiðimenn fengu strax fiska upp úr klukkan sjö. Flestir fiskarnir voru vænir eða um 50 cm.  Ein væn bleikja koma einnig á land. Fínn lofthiti hefur verið á svæðinu síðustu daga, en í dag, fór hitinn upp í 15°.

Sumarið fer því sannarlega vel af stað og verður spennandi að fylgast með vatnaveiðinni á næstu dögum!

Fyrri frétt
Frábær sumarhátíð veiðimanna
Næsta frétt
Sumarhátíð við Elliðavatn sumardaginn fyrsta!