Veiðisvæði

Staðsetning:

Hraunsfjarðarvatn er á Snæfellsnesi.
 

Leiðarlýsing og fjarlægð frá Reykjavík og næsta bæjarfélagi.

Vatnið er um 200 km. frá Reykjavík, um 15 km. í suður frá bæði Grundarfirði og Stykkishólmi, á leið frá Vegamótum í norður. Nýja vatnaleiðin á Snæfellsnesi gerir það að verkum, að hægt er að aka nær alveg upp að vatninu á vegaslóða, frá Baulárvallavatni, en síðasta spölinn þarf að fara fótgangandi (15 mín.) Slóði þessi er einungis fær fjórhjóladrifnum bílum.
 

Upplýsingar um vatnið:

Vatnið er um 2,5 km2 að stærð og 84 m. djúpt, þar sem það er dýpst. Það er í um 207 m. yfir sjávarmáli. Þaðan rennur Vatná í Baulárvallavatn.
 

Veiðisvæðið:

Veiða má í öllu vatninu.
 

Gisting:

Hægt er að tjalda endurgjaldslaust við vatnið, en engin sérstök hreinlætisaðstaða er við vatnið.
 

Veiði:

Jafnan er veiði góð í vatninu. Einungis urriði er í vatninu, sem gjarnan er vænn. Meðalþyngd fiska er 2-3 pund, en algengt er, að þar veiðist stærri fiskar, 5-6 pund, einkum í ljósaskiptunum.
 

Daglegur veiðitími:

Leyfilegt er að veiða frá morgni til kvölds.
 

Tímabil:

Veiðitímabil hefst þegar ísa leysir og stendur fram til 30. september.
 

Agn:

Allt löglegt agn: fluga, maðkur og spónn. Fiskur getur legið djúpt og þá þarf að sökkva agninu. Spónn og maðkur gefa að jafnaði ágæta veiði. Í ljósaskiptunum ferðast urriðinn inn á grunnið við landið og er þá gott að nota flugu.
 

Besti veiðitíminn:

Góð veiði er allt sumarið. Yfirleitt er best að veiða í ljósaskiptunum.
 

Reglur:

Veiðimenn eru beðnir um að skilja ekki eftir sig rusl og ganga vel um. Korthafar þurfa að skrá sig í Vegamótum og sýna þarf bæði Veiðikortið og persónuskilríki. Börn yngri en 14 ára veiða frítt í fylgd með korthafa.
 

Tengiliður á staðnum / veiðivörður

Veiðihúsið Straumfjarðará s: 435-6674. Vegamót s: 435-6690.